Mikil framfaraskref frá HM

„Þetta sannfærandi og góður leikur hjá okkur þar sem sigurinn var aldrei í hættu," sagði Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir öruggan sigur, 34:22, á Svartfellingum í lokaleik undankeppni Evrópumeistaramótsins í Laugadalshöll í dag. Þar með tryggði íslenska landsliðið sér efsta sæti fjórða undankeppni EM og innsiglaði keppnisrétt á mótinu sem fram fer í Póllandi í janúar.

„Við byrjuðum vel og héldum dampi út leikinn sem var virkilega jákvætt," sagði Snorri Steinn. „Þetta svipaður leikur og heimaleikurinn gegn Serbum í lok apríl. Það er vel að við getum leikið af sama styrk tvo heimaleiki í röð.

Vandi okkar síðasta ári hefur meðal annars falist í að við höfum misst dampinn öðru hverju og dottið niður á skítaleiki. Stöðugleikinn hefur ekki verið fyrir hendi. Mér finnst við vera að nálgast fyrri styrk," sagði Snorri Steinn og bætir við að tapleikurinn fyrir Svartfellingum í haust sem leið og frammistaðan á HM í Katar hafi fengið menn til þess að setjast niður og hugsa sinn gang.

„Það er meiri kraftur og grimmd í liðinu," segir Snorri Steinn Guðjónsson. „Þetta er mikið jákvæðara en á HM í janúar."

Nánar er rætt við Snorra Stein á meðfylgjandi myndskeiði.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert