Við höfum trú á þessu

Rut Arnfjörð Jónsdóttir.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rut Arnfjörð Jónsdóttir hefur ennþá trú á því að draumur íslenska kvennalandsliðsins verði að veruleika um að komast á HM sem haldið verður í Danmörku í janúar næstkomandi. Hún tók hins vegar afar margt þurfti að ganga upp en segir að sigur gegn Svartfjallalandi muni gefa liðinu mikið.

Ísland tapaði fyrri leiknum með níu mörkum, 28:19, og þarf að vinna þann mun upp og ljóst er að það verður hægara sagt en gert enda Svartfjallaland eitt besta handboltalandslið í heiminum. Ísland byrjaði leikinn hins vegar frábærlega í Svartfjallalandi og komst í 10:4 stöðu áður en að sóknarleikur liðsins hrundi en jafnt var í hálfleik 12:12

„Það er ótrúlega svekkjandi að fá ekki betri úrslit úti. Við komum okkur í erfiða stöðu en markmiðið og draumurinn er auðvitað að komast áfram. Ef tækifæri gefst þá reynum við það auðvitað en fyrir okkur væri rosalega gott að fá sigur, bara fyrir sjálfstraust liðsins og fyrir framhaldið,“ sagði Rut sem segir það merkilega gott að undirbúa sig andlega fyrir leikinn.

„Það er bara allt í lagi þrátt fyrir aðstæður. Þetta er ótrúlega góður hópur. Það er búið að vera mikil og góð einbeiting hjá liðinu um að fá góðan leik á sunnudaginn, að klára þetta verkefni á góðum leik, helst sigri,“ sagði Rut.

Mikil meiðsli hafa hrjáð íslenska liðið undanfarin ár. Karen Knútsdóttir sem er algjör lykilmaður í íslenska liðinu, gat ekki tekið þátt í fyrri leiknum og í leiknum úti í Svartfjallalandi var liðið fyrir áfalli þegar að Birna Berg Haraldsdóttir sleit krossband í annað skiptið á ferlinum. Þetta hefur áhrif á liðið segir Rut.

„Jú algjörlega, það tekur á og gerir þetta erfiðara. En leikmennirnir sem koma inn fá stærri hlutverk og hafa verið að standa sig vel. Auðvitað skiptir samt máli að vera með alla leikmenn klára,“ sagði Rut.

Hún segir íslenska liðið hafa lært margt af fyrri leiknum.

„Það er margt sem þarf að ganga upp til þess að okkar draumur verði að veruleika en við höfum trú á þessu. Við byrjuðum rosalega vel og sáum hvað við getum. Það var svekkjandi að þetta var í svona stuttan tíma,“ sagði Rut og hélt áfram.

„Við erum bara undir með þremur mörkum þegar að 10 mínútur eru eftir af leiknum. Við lærum samt af því að þær refsa mjög hratt ef við gerum mistök. Við þurfum að vera mjög skynsamar í sóknarleiknum og þurfum helst að enda sóknirnar með góðu skoti,“ sagði Rut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert