Ísland í öðrum styrkleikaflokki fyrir EM

Íslenska landsliðið fagnar stórsigrinum gegn Svartfjallalandi í gær.
Íslenska landsliðið fagnar stórsigrinum gegn Svartfjallalandi í gær. mbl.is/Eggert

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, hefur staðfest styrkleikaflokkana fyrir dráttinn í lokakeppni Evrópumóts karla á föstudaginn kemur, en þar verður dregið í riðla fyrir lokakeppnina sem fram fer í Póllandi í janúar á næsta ári.

Ísland er í öðru styrkleikaflokki af fjórum og náði þeirri dýrmætu stöðu með sigrinum á Svartfellingum í Laugardalshöllinni í gær. Hin tvö liðin sem fylgja Íslandi áfram úr riðlinum, Serbía og Svartfjallaland, eru bæði í fjórða flokki og því eru 50 prósent líkur á að Ísland mæti öðruhvoru þeirra í riðlakeppninni í Póllandi.

Styrkleikaflokkarnir eru þannig skipaðir, en eitt lið verður dregið úr hverjum flokki í hvern riðil keppninnar:

1. flokkur: Frakkland, Danmörk, Spánn og Króatía.

2. flokkur: Ísland, Pólland, Svíþjóð og Ungverjaland.

3. flokkur: Rússland, Makedónía, Þýskaland og Hvíta-Rússland.

4. flokkur: Serbía, Noregur, Slóvenía og Svartfjallaland.

Ísland getur þar með ekki lent í riðli með Pólverjum, Svíum eða Ungverjum, en getur mætt hinum tólf þátttökuþjóðunum.

Þegar liggur fyrir að Pólverjar munu leika í A-riðli í Kraków, Króatar verða í B-riðli í Katowice, Þjóðverjar verða í C-riðli í Wroclaw og Danir leika í D-riðli í Gdansk. Það er því klárt að þessi fjögur lið mætast ekki í riðlakeppninni.

Þar með er ljóst að Ísland getur ekki bæði lent með Danmörku og Þýskalandi í riðli en þar eru Guðmundur Þ. Guðmundsson og Dagur Sigurðsson þjálfarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert