A-landsliðið hefur skort pressu

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleikssambandið.

Gunnar Magnússon verður áfram Aroni til aðstoðar eins og undanfarin ár en Ólafur Stefánsson er nú einnig orðinn formlega aðstoðarþjálfari en hann steig inn í þjálfarateymið fyrir leikina tvo gegn Serbíu.

„Skapaðist góð dínamík í teyminu“

„Óli verður áfram með okkur í þessu.  Það skapaðist góð dínamík í teyminu í undanförnum verkefnum. Óli er einnig góður að vinna með leikskilninginn hjá yngri leikmönnunum,“ sagði Aron sem verður þó áfram aðalþjálfari.

„Gunnar verður meira í kringum vídeóvinnu og slíkt. Óli hefur verið að spila með mörgum af þessum leikmönnum. Hann hefur gott vit á handbolta og kemur með góða punkta. Hann kemur líka með góða stemningu inn í þetta,“ sagði Aron spurður um hvernig verkaskiptingin hjá þjálfurunum yrði.

Ákveðin óvissa var um það hvort Aron myndi halda áfram með liðið en nú er orðið ljóst að svo verður.

„Þetta var nú alltaf á ágætri leið. Eftir Serbaleikina lá þetta eiginlega ljóst fyrir, þetta snerist þá um einhver smáatriði vegna leikjaverkefna hjá mér. Okkur fannst vera góður stígandi í þessu og þetta leit vel út,“ sagði Aron en margir töldu þennan langa aðdraganda tengjast því að Ísland yrði að komast á Evrópumeistaramótið, eins og gerðist.

Íslenska liðið spilaði feykivel í síðustu fjórum leikjum sínum í undankeppninni.

„Já, liðið leit vel og út það var góð stemning í þessu. Hugarfarið var frábært, við þurfum að halda áfram á þeirri braut á Evrópumótinu,“ sagði Aron.

Pressa á þá sem hafa verið lengi í landsliðinu

Aron mun ekki þjálfa neitt félagslið meðfram starfi sínu sem landsliðsþjálfari en mun þó sinna ýmsum öðrum störfum fyrir HSÍ. Til að mynda mun hann koma, ásamt Ólafi Stefánssynni, að afrekshópum HSÍ sem hleypt var af stokkunum í vor en þeim er ætlað að efla, bæta og þróa unga leikmenn í bæði karla- og kvennaflokki og stytta leið þeirra að A-landsliðunum.

„Við erum búnir að koma upp afrekshópi innan HSÍ sem við þurfum að fylgja eftir út í félögin. Það þarf að efla samskiptin við félögin til þess að við séum að hámarka þróunina á leikmönnunum. Þetta er leikmenn sem spila í Olís-deildinni og í 2. flokki og er að vinna í því að verða A-landsliðsmenn,“ sagði Aron.

„Það þarf einnig að taka upp þráðinn aftur þjálfaramenntunina, gera hana stöðugri svo að hún keyri á hverju ári,“ sagði Aron.

Aron segir fyrirkomulagið ekki byggja á erlendri fyrirmynd heldur lítur það að séríslenskum aðstæðum.

„Nei, ekki beint.  Við erum að reyna að hámarka þróun okkar efnilega fólks. Það er svo mikið af erlendum samböndum með marga leikmennina í B-landsliði heima fyrir en hjá okkur liggja þeir sem eru rétt fyrir utan landsliðið  erlendis. Við erum með hóp sem eru kannski búinn með 20 ára landsliðið eða þá er í öðrum yngri landsliðum. Við viljum efla þróunina á þessum leikmönnum og tryggja það að það sé verið að hámarka líkamlega, leikskilningslega og andlega þróun leikmannana,“ sagði Aron.

Ástæðan fyrir þessu nýja fyrirkomulagi er sú að Aron hefur séð að það hefur skort pressu á þá leikmenn sem eru fyrir í A-landsliðinu og er þetta gert til þess að halda mönnum á tánum.

„Við höfum fundið fyrir því að okkur hefur vantað að það séu fleiri leikmenn sem pressa á þá leikmenn sem hafa verið lengi í landsliðinu, að það komi meiri pressa neðan frá frá yngri leikmönnum. Þetta er það sem við erum að reyna stuðla að,“ sagði Aron.

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. mbl.is/Ómar
Aron Kristjánsson og Gunnar Magnússon ganga af velli í hálfleik, …
Aron Kristjánsson og Gunnar Magnússon ganga af velli í hálfleik, þungir á brún. Golli@mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert