Þjóðverjum og Serbum kippt inn á HM

Ísland og Svartfjallaland börðust um sæti á HM.
Ísland og Svartfjallaland börðust um sæti á HM. mbl.is/Eggert

Þýskaland og Serbía hafa fengið keppnisrétt í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik sem fram fer í Danmörku í desember, þrátt fyrir að hafa tapað umspilsleikjum gegn Rússlandi og Rúmeníu fyrr í þessum mánuði.

Alþjóða handknattleikssambandið tilkynnti þetta í gærkvöld en áður hafði verið samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar sambandsins að henni yrði heimilt að ráðstafa tveimur lausum sætum í lokakeppninni.

Ísland var líka í hópi þeirra liða sem töpuðu umspilsleikjum fyrir HM, gegn Svartfjallalandi, og misstu þar með af sæti í lokakeppninni.

Í frétt handball-world um málið segir að vegna þess að Serbía hafi fengið silfurverðlaun í síðustu heimsmeistarakeppni og Þýskaland hefði endað í sjöunda sæti í þeirri keppni hefðu það verið þær tvær þjóðir sem stóðu næst því að fá keppnisréttinn á HM.

Þar með hafa bæði karla- og kvennalið Þýskalands fengið að taka þátt í heimsmeistaramótum á þessu ári eftir að hafa tapað umspilsleikjum um sæti þar.

Dregið verður í riðla keppninnar í Kolding annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert