Björgvin í viðræðum við Skövde

Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik gegn Aftureldingu í vetur.
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik gegn Aftureldingu í vetur. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Björgvin Þór Hólmgeirsson, handknattleiksmaður úr ÍR og besti leikmaður síðasta Íslandsmóts í karlaflokki, er í viðræðum við sænska úrvalsdeildarfélagið Skövde um að leika með því á næsta keppnistímabili.

Netmiðillinn fimmeinn.is skýrði frá því í dag að Björgvin hefði náð samkomulagi við Skövde og skrifað yrði undir samninginn þegar hann kæmi heim úr fríi erlendis.

„Þetta er nú ekki komið alveg svona langt,“ sagði Björgvin þegar mbl.is náði tali af honum fyrir stundu. „Ég bíð eftir því að fá samning í hendurnar og svo sjáum við til hvað gerist. Þetta er allt í vinnslu, og það eru fleiri lið inni í myndinni hjá mér,“ sagði Björgvin.

Hann staðfesti að hann myndi örugglega leika erlendis á komandi tímabili. „Já, það er algjörlega á hreinu. Ég ætla mér aftur út í atvinnumennsku, enda dugar ekkert annað ef maður ætlar sér að komast í landsliðið,“ sagði Björgvin, sem var markakóngur Olís-deildarinnar síðasta vetur.

Skövde hafnaði í 11. sæti af fjórtán liðum í sænsku úrvalsdeildinni síðasta vetur en hélt sæti sínu eftir umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert