Vissulega erfið ákvörðun

Þórir Ólafsson lék með Stjörnunni í vetur.
Þórir Ólafsson lék með Stjörnunni í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handboltakappinn Þórir Ólafsson greindi frá því á Facebook-síðu sinni á dögunum að handboltaferli hans væri nú lokið en hornamaðurinn knái, sem þekktur er fyrir að skora mörk úr nær ómögulegum færum, tók þá ákvörðun eftir góða umhugsun að láta staðar numið.

„Já, vissulega var þetta erfið ákvörðun en ég var búinn að vera að hugsa út í þessi mál og komst að lokum að þeirri niðurstöðu að þetta væri bara fínn tími til að láta staðar numið. Ég á samt örugglega eftir að mæta á einhverjar æfingar og sprikla eitthvað en alvöru ferli mínum er lokið,“ sagði Þórir í samtali við Morgunblaðið. Hann er að jafna sig eftir hnéaðgerð sem hann gekkst undir ekki alls fyrir löngu. „Það var verið að laga brjóskskemmdir í hnénu, bora og skrapa og því um líkt. Það var kominn tími á að gera þetta,“ sagði Þórir.

Þórir lauk ferli sínum sem spilandi aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni en hlutskipti Garðabæjarliðsins var að falla úr úrvalsdeildinni í vor. Þórir sneri heim úr atvinnumennskunni og gekk í raðir Stjörnunnar en hóf atvinnumannsferil sinn árið 2005 með þýska liðinu N-Lübbecke sem hann lék með í sex ár áður en hann gekk í raðir pólska stórliðsins Kielce. Þórir er uppalinn Selfyssingur og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með Selfyssingum en fór þaðan til Hauka áður en atvinnumannsferill hófst.

Mikið stökk niður á við

„Það var mikið stökk niður á við að koma heim og spila. Mig langaði samt að prófa það og gera það í öðru hlutverki hjá Stjörnunni. Ég hefði svo sem getað haldið áfram að spila í efstu deildinni hér heima í skyttustöðunni eða í horninu en þegar maður hefur ekki þann tíma til að hugsa um sig eins og í atvinnumennskunni, fara í vinnu og sinna fjöldskyldunni þá komst ég að þeirri niðurstöðu að segja þetta gott. Það var ekki sami neistinn að koma úr Meistaradeildinni yfir í það að spila í deildinni hér heima,“ sagði Þórir.

Sjá viðtalið í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert