Vill burt frá Alfreð vegna peninga

Filip Jicha hefur verið lykilmaður í liði Kiel.
Filip Jicha hefur verið lykilmaður í liði Kiel. Ljósmynd/thw-provinzial.de

Filip Jicha, helsta stjarna Tékka í handknattleik, vill losna frá Alfreð Gíslasyni hjá Kiel í Þýskalandi og hefur óskað eftir því að verða seldur til Barcelona á Spáni, félagið sem Guðjón Valur Sigurðsson leikur með.

„Ég vildi klára ferilinn minn hér hjá Kiel, en nú bið ég félagið um að selja mig umsvifalaust,“ sagði Jicha, og útskýrði nánar hvers vegna, en Tékkann virðist vanta pening eftir að hafa verið narraður í misjafnar fjárfestingar.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra á Jicha að hafa eytt um 40% allra launa sem hann hefur fengið á átta ára tímabili hjá Kiel í þessa fjárfestingu, og vill nú yfirgefa félagið til þess að geta veitt fjölskyldu sinni fjárhagslegt öryggi þegar ferlinum líkur.

„Ef ég mundi fá samning til 2019 hjá Barcelona mundi það veita mér mikið öryggi, sérstaklega þar sem á Spáni er mönnum heitið öruggum greiðslum,“ sagði Jicha, sem hefur verið hjá Kiel frá 2007 en þaðan kom hann frá Lemgo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert