„Ég hata að tapa“

Aron við bikaraskápinn í höfuðstöðvum Veszprém.
Aron við bikaraskápinn í höfuðstöðvum Veszprém. Ljósmynd/.mkb-mvmveszprem.hu

Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson er kominn á nýjar slóðir á ferli sínum en hann hóf í vikunni æfingar með ungverska meistaraliðinu Veszprém sem hann gekk í raðir í sumar frá Kiel.

Aron er í viðtali á vef Veszprém og er spurður hver hafi verið ástæða þess að hann skipti um lið og valdi Veszprém?

„Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ég vildi ekki vera í Þýskalandi. Veszprém sýndi mér mikinn áhuga og ég skoðaði aðstæður hjá liðinu með umboðsmanni mínum. Í kjölfarið sagði ég honum að ég vildi fara til liðsins og forystumenn félagsins sannfærðu mig að koma og sögðu mér frá markmiðum sínum sem er meðal annars að vinna Meistaradeildina,“ sagði Aron.

„Helstu markmið mín er að vinna titla með nýja liðinu og ég vil gera allt sem unnt er til að tryggja það,“ segir Aron en Veszprém er sigursælasta lið Ungverjalands og hefur 24 sinnum hampað ungverska meistaratitlinum og 23 sinnum hefur liðið orðið bikarmeistari.

Á síðustu leiktíð komst liðið í úrslit í Meistaradeildinni eftir að hafa lagt Kiel að velli í undanúrslitunum en liðið beið svo lægri hlut fyrir Guðjóni Vali Sigurðssyni og samherjum hans í Barcelona í úrslitaleiknum.

Í viðtalinu er Aron beðinn að lýsa sér og hann segir;

„Ég er ekki eigingjarn leikmaður. Mér er sama hvort ég skori tíu mörk eða eitt svo lengi sem liðið vinnur. Ég mun gera allt til að vinna því ég hata að tapa.“

Aron gekk til liðs við Kiel frá FH árið 2009. Hann varð sex sinnum þýskur meistari með liðinu, varð fjórum sinnum þýskur bikarmeistari, vann Meistaradeildina í þrígang og einu sinni hampaði hann heimsmeistaratitli félagsliða með liðinu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert