Björgvin á leið til Dubai

Björgvin Hólmgeirsson fer til Dubai.
Björgvin Hólmgeirsson fer til Dubai. Eva Björk Ægisdóttir

Björgvin Hólmgeirsson, leikmaður ÍR í Olís-deild karla í handknattleik, er á leið til AL Wasl SC í Dubai, en þetta kemur fram á Vísi.is í kvöld.

Hann var markahæsti maður Olís-deildarinnar á síðasta tímabili með 168 mörk og var í kjölfarið valinn besti leikmaður deildarinnar.

ÍR-ingurinn öflugi var í viðræðum við sænska liðið Skövde, en hann segist hafa hafnað því er Vísir náði tali af honum. Björgvin ræddi einnig við Dinamo Búkarest, en ákvað að hafna báðum tilboðum.

„Það er líklegt að þetta gangi eftir en það er ekki búið að staðfesta neitt,“ sagði Björgvin við Vísi í kvöld, en líklegt er að hann semji við félagið um helgina.

„Ef þetta gengur upp þá verður þetta ævintýramennska en ekki atvinnumennska hjá okkur fjölskyldunni. Ég er tilbúinn að prófa þetta í tíu mánuði,“

„Það er enginn peningur til í þessu lengur svo maður nennir ekki að standa í einhverju harki. Frekar vill maður taka ævintýramennskuna á þetta og lifa lífinu. Í versta falli verður þetta langt sumarfrí,“ sagði Björgvin að lokum við Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert