Karen á sigurbraut í Frakklandi

Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Ljósmynd/hsi.is

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, skoraði fjögur mörk fyrir Nice í kvöld þegar liðið vann sinn fyrsta leik í frönsku 1. deildinni í handknattleik en þá sótti Nice liðsmenn Dijon heim.

Nice var með yfirhöndina lengst í leiknum og vann með fimm marka mun, 28:23. Nice var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11.

Arna Sif Pálsdóttir, landsliðskona, sem gekk til liðs við Nice í sumar var ekki í leikmannahópi liðsins að þessu sinni.

Þetta var fyrsti sigur Nice á keppnistímabilinu en liðið tapaði í fyrstu umferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert