Rut og Sigvaldi í toppbaráttu

Rut Jónsdóttir leikur með toppliðinu Randers.
Rut Jónsdóttir leikur með toppliðinu Randers. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Rut Jónsdóttir og hinn ungi Sigvaldi Björn Guðjónsson eru í ósigruðum liðum í dönsku úrvalsdeildunum í handknattleik, kvenna og karla, eftir góða sigurleiki í dag.

Rut skoraði 2 mörk fyrir Randers sem vann léttan útisigur á SönderjyskE, 32:18. Steinunn Hansdóttir leikur með SönderjyskE en náði ekki að skora í leiknum. Randers er með 5 stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar og er á toppnum, en Esbjerg og Silkeborg-Voel eru með sama stigafjölda. SönderjyskE er á botninum, án stiga.

Sigvaldi gekk til liðs við Århus frá Bjerringbro/Silkeborg í sumar og hann skoraði 3 mörk í dag þegar lið hans vann Nordsjælland, 26:20. Århus er með 6 stig í öðru sæti deildarinnar eftir fjórar umferðir en Bjerringbro/Silkeborg er með 7 stig á toppnum. Jóhann Karl Reynisson gerði eitt mark fyrir Nordsjælland sem er með 2 stig í næstneðsta sætinu.

Íslendingarnir í Mors-Thy voru rólegir í dag og skoruðu bara eitt mark samtals í ósigri gegn Skanderborg, 26:21. Róbert Aron Hostert skoraði það mark en hvorki Guðmundur Árni Ólafsson né Agnar Smári Jónsson komst á blað. Mors-Thy er með 2 stig eftir fjóra leiki og er í 10. sæti af fjórtán liðum.

Sigvaldi Björn Guðjónsson leikur með Århus.
Sigvaldi Björn Guðjónsson leikur með Århus.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert