Dómgæslan var bara í þeirra anda

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Víkinga, var óhress með frammistöðu sinna manna eftir stórtap gegn Akureyri, 30:21, í Olís-deild karla í handknattleik í dag. Ágúst lét fjölmiðla bíða lengi eftir viðtali þar sem hann var að tala við sína menn í klefanum.

„Við fórum fyrir þetta í rólegheitum, við þurfum að sýna betri frammistöðu en þetta til að ná í stig í þessari deild, það er ljóst. Við vorum slakir í vörninni í dag sem hefur verið okkar helsti styrkur. Svo þurfum við að klára sóknirnar betur. Við fáum klaufalega og sérstakar brottvísanir sem er dýrt gegn liði eins og Akureyri. Svo er Hreiðar að verja algjörlega eins og brjálæðingur í markinu hjá þeim.

Við vissum að þetta yrði erfiður og strembinn vetur en við eigum að geta gert betur en við sýndum í dag,“ sagði Ágúst, en athygli vakti hversu harðorður hann var í garð dómara leiksins á meðan honum stóð.

„Ég var sallarólegur í fyrri hálfleik en ég veit ekki hvað við fengum margar brottvísanir í seinni hálfleik og það er erfitt. Ég á eftir að skoða leikinn aftur en mér fannst margar brottvísanir mjög sérstakar. En það er best að segja bara sem minnst.  Við vorum það slakir að það er lítið um þeirra þátt að segja, en dómgæslan var bara í þeirra anda,“ sagði Ágúst Jóhannsson og lesa má þar á milli línanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert