Annar sigur Akureyrar í röð

Bergvin Þór Gíslason sækir að marki Víkinga í leiknum í …
Bergvin Þór Gíslason sækir að marki Víkinga í leiknum í dag. mbl.is/Eggert

Akureyri vann sinn annan leik í röð í Olís-deild karla í handknattleik þetta tímabilið þegar liðið mætti Víkingi í fyrsta leik sjöundu umferðar í Víkinni. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik sýndu gestirnir styrk sinn í þeim síðari og uppskáru öruggan sigur, 30:21.

Gestirnir frá Akureyri voru með yfirhöndina í upphafi leiks og héldu tveggja marka forskoti lengi vel áður en Víkingar jöfnuðu metin í 7:7. Eftir það var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að hafa forystuna.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn kom hins vegar góður kafli hjá Akureyringum. Þeir skoruðu sex mörk gegn einu og fóru frá því að vera tveimur mörkum undir í það að vera þremur mörkum yfir, en heimamenn náðu þó að klóra í bakkann áður en hálfleikurinn var úti þrátt fyrir að mikil orka hafi farið í að tuða yfir dómgæslunni. Þegar flautað var til leikhlés höfðu gestirnir eins marks forystu, 14:13.

Akureyringar komu gríðarlega grimmir til leiks í síðari hálfleik, skoruðu fimm fyrstu mörk hans og náðu fljótt sex marka forystu, 19:13. Heimamenn virtust ætla að saxa á forskotið þegar leið á, minnkuðu muninn í þrjú mörk á ný en Akureyringar sneru bökum saman og bættu í. Þegar tíu mínútur voru eftir höfðu þeir sjö marka forystu, 25:18, og að duga eða drepast fyrir heimamenn.

Ekki fór það svo að Víkingar kæmu til baka, heldur þvert á móti. Akureyringar slökuðu ekki á heldur keyrðu enn frekar yfir heimamenn og þegar yfir lauk munaði níu mörkum á liðunum, lokatölur 30:21 og annar sigur Akureyringa í röð staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í dag.

Víkingur 21:30 Akureyri opna loka
60. mín. Jóhann Reynir Gunnlaugsson (Víkingur) skoraði mark Lagar stöðuna í lokin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert