Bestur í dauðafærum

Giedrius Morkunas, markvörður Hauka.
Giedrius Morkunas, markvörður Hauka. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Litháíski markvörðurinn Giedrius Morkunas hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum með Íslandsmeisturum Hauka á leiktíðinni og hann er leikmaður 6. umferðar Olís-deildar karla.

Morkunas átti flottan leik á milli stanganna á Seltjarnarnesi í síðustu viku þegar Haukar báru sigurorð af nýliðum Gróttu, 24:22. Litháinn varði 15 skot í leiknum og þar af tvö vítaskot og á löngum kafla lokaði hann marki sínu.

Goggi, eins og hann er jafnan kallaður, er 27 ára gamall og er á sínu þriðja tímabili með Haukunum en hann „datt“ óvænt inn í Haukaliðið þegar hann kom með fyrrverandi kærustu sinni, Mariju Gedroit, sem spilaði með Haukum. Morkunas kom til landsins árið 2011. Hann æfði með Stjörnumönnum fyrsta árið en fór síðan til Haukanna og hefur svo sannarlega reynst þeim vel.

Morgunblaðið fékk Matthías Árna Ingimarsson, fyrirliða Hauka og varnarjaxl, til að lýsa Morkunas:

„Hann er bara búinn að halda uppteknum hætti frá úrslitakeppninni í vor. Hann tók törn með litháíska landsliðinu í sumar og hann var tekinn inn í hópinn eftir frábæra frammistöðu með okkur. Goggi hefur verið frábær í byrjun tímabilsins,“ segir Matthías Árni.

„Það er svolítið fyndið með Morkunas. Hann virðist aldrei vera ánægður með eigin frammistöðu þó svo að hann verji á þriðja tug skota. Hann hugsar alltaf um þessa tvo til þrjá bolta sem láku inn. Hann er rosalegur keppnismaður og er frábær liðsfélagi í alla staði,“ segir fyrirliðinn, sem þarf svo sannarlega að vera með góða tengingu við Morkunas, spilandi í miðju varnarinnar.

Sjá allt viðtalið við Matthías Árna þar sem hann lýsir Morkunas

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert