Alfreð Gísla sendir Jicha tóninn

Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason mbl.is/Þórir Tryggva

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel, sendir tékknesku stórskyttunni Filip Jicha tóninn í viðtalið við þýskt handboltatímarit. 

Jicha hafði í sumar félagaskipti frá Kiel yfir til Evrópumeistaranna í Barcelona eftir mörg góð ár með Kiel í Þýskalandi. 

Alfreð er ekki alls kostar sáttur við framkomu Jicha í málinu og svo virðist sem áhugi Jicha á því að fara til Spánar hafi borið fremur brátt að. 

„Hefðum við vitað af þessum áformum Jicha í apríl þá hefðum við náttúrlega aldrei látið Rasmus (Lauge) fara til Flensborg. Hinn möguleikinn í stöðunni fyrir okkur hefði verið að banna Jicha að fara en öruggt er að slík staða hefði orðið stórt bíó,“ er meðal annars haft eftir Alfreð. 

Jicha var fyrirliði hjá Kiel og vinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins enda um tíma einn albesti leikmaður heims. Alfreð bar í viðtalinu Jicha saman við tvo sterka leikmenn sem lengi þjónuðu Kiel, Svíana Stefan Lövgren og Marcus Ahlm. „Lövgren og Ahlm hefðu aldrei komið svona fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert