Tíu marka tap gegn Frökkum

Karen Knútsdóttir í baráttu við Grace Zaadi Deuna og Allison …
Karen Knútsdóttir í baráttu við Grace Zaadi Deuna og Allison Pineau. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ísland varð að sætta sig við tíu marka tap í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016 í handknattleik kvenna. Ísland mætti Frökkum ytra og eftir jafnan fyrri hálfleik varð stórsigur Frakka niðurstaðan, 27:17.

Ísland mætir næst Þýskalandi á sunnudaginn hér heima, en fjórða þjóðin í riðlinum er Sviss. Tvær efstu þjóðirnar úr riðlinum komast í lokakeppni EM, sem fram fer í Svíþjóð. Liðið með bestan árangur í 3. sæti, í undanriðlunum sjö, kemst einnig í lokakeppnina.

Íslenska liðið lék mjög vel í fyrri hálfleik í dag, sérstaklega framan af honum. Vörnin var afar þétt og Ísland fékk tækifæri til að ná tveggja marka forskoti eftir korters leik, en skot Karenar Knútsdóttur fór í stöngina. Þá skoruðu Frakkar hins vegar fjögur mörk í röð og komust í 8:5, og því forskoti héldu þeir til loka fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 11:8.

Í seinni hálfleik var munurinn hins vegar mikill á liðunum. Frakkar náðu fljótt sex marka forskoti, 16:10, en Ísland minnkaði muninn í 17:13. Íslenska liðið gerði hins vegar of mörg mistök gegn sterkri vörn heimamanna, og fyrir nánast hver einustu mistök Íslands í sóknarleiknum refsuðu Frakkar grimmilega með hraða sínum. Leikurinn fjaraði smám saman út og Ágúst Jóhannsson leyfði óreyndari leikmönnum að spreyta sig síðustu mínúturnar.

Markverðir franska liðsins vörðu vel í leiknum, samtals 16 skot, en markvarslan var sáralítil hjá íslensku markvörðunum. Sóknarleikur Íslands gekk ekki nægilega vel og þar munaði mikið um að Karen Knútsdóttir skoraði ekki mark úr opnum leik, en Frakkar tóku hana föstum tökum.

Næsti leikur Íslands er eins og fyrr segir gegn Þjóðverjum á sunnudag, kl. 16 í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is í beinni textalýsingu.

Frakkland 27:17 Ísland opna loka
60. mín. Beatrice Edwige (Frakkland) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert