Grótta stóðst ótrúlegt áhlaup Víkinga

Júlíus Þórir Stefánsson, hornamaður Gróttu, í loftinu.
Júlíus Þórir Stefánsson, hornamaður Gróttu, í loftinu. mbl.is/Eva Björk

Grótta vann nýliðaslaginn við Víkinga, 25:24, í 12. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld. Grótta komst í 20:12 en lokamínúturnar voru spennandi.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik, þar sem Grótta hafði þó ávallt frumkvæðið, var staðan 13:11. Grótta hóf svo seinni hálfleikinn af miklum krafti og virtist ætla að valta yfir gestina. Heimamenn náðu mest átta marka forskoti, 20:12, en þá hrukku Víkingar í gang. Kannski ekki allir reyndar, en svo sannarlega þeir Magnús Gunnar Erlendsson markvörður og Atli Karl Bachmann. Atli Karl, sem hefur látið lítið fyrir sér fara á leiktíðinni, raðaði hreinlega inn stórglæsilegum mörkum og virtist geta skorað að vild.

Gróttumenn voru miklir klaufar í sóknarleik sínum, og smám saman fór munurinn á liðunum niður í eitt mark, 22:21, þegar enn voru tíu mínútur til leiksloka. Gunnar Andrésson þjálfari tók þá leikhlé og hans menn svöruðu kallinu með því að slíta Víkinga aðeins frá sér á nýjan leik. Spennan ríkti þó fram á lokamínútu en Grótta fagnaði sigrinum vel, með stuðningsmönnum sínum sem voru lifandi á áhorfendapöllunum.

Daði Laxdal Gautason og Aron Dagur Pálsson voru bestu mennirnir í sóknarleik Gróttu, en Daði skoraði sjö mörk og var markahæstur. Hjá Víkingi skoraði Atli Karl 10 mörk, en vörn Gróttu hélt Karolis Stropus kyrfilega niðri og skoraði hann aðeins fjögur mörk, þar af eitt úr víti.

Grótta 25:24 Víkingur opna loka
60. mín. Atli Karl Bachmann (Víkingur) skoraði mark 10 sek eftir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert