Ljónin unnu refina í Íslendingaslag

Alexander Petersson og félagar eru á toppnum.
Alexander Petersson og félagar eru á toppnum. EPA

Rhein-Neckar Löwen hafði betur þegar liðið mætti Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans í Füchse Berlin í uppgjöri Íslendingaliða í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld. Lokatölur urðu 28:26 í þessum fyrsta leik fimmtándu umferðarinnar.

Löwen var þremur mörkum yfir í hálfleik 14:11, og hafði fimm marka forskot þegar um tíu mínútur voru eftir. Berlínarrefirnir reyndu að koma til baka og Bjarki Már Elísson minnkaði til dæmis muninn niður í tvö mörk þegar skammt var eftir, en nær komust þeir ekki. Lokatölur 28:26 fyrir Löwen.

Uwe Gensheimer var markahæstur með níu hörk hjá Löwen en Alexander Petersson skoraði fimm. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað. Hjá Füchse skoraði Peter Nenadic tíu mörk og Bjarki Már skoraði þrjú.

Löwen hefur unnið fjórtán af fimmtán leikjum sínum, er með 28 stig og fjögurra stiga forskot á Melsungen, sem á þó leik til góða. Fücshe er hins vegar í fimmta sætinu með nítján stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert