Loks unnu ÍR-ingar

Sturla Ásgeirsson úr ÍR og Sveinn Aron Sveinsson, Val.
Sturla Ásgeirsson úr ÍR og Sveinn Aron Sveinsson, Val. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

ÍR-ingar sóttu tvö stig í Vodafonehöllina í kvöld í hendur Valsmanna í Olís-deild karla, 27:26. ÍR hafði ekki unnið leik síðan í fjórðu umferð þegar liðið mætti til leiks að þessu sinni. Liðið var mikið betra í leiknum í kvöld vann sanngjarnan sigur á Valsmönnum sem  voru ólíkir sjálfum sér og stundum alveg úti á þekju, ekki síst í sóknarleiknum.

Valsliðið fór afleitlega af stað í leiknum og segja má að það hafi aldrei náð sér upp úr því hjólfari. ÍR-ingar voru komnir með fjögurra marka forskot, 5:1, eftir aðeins sjö mínútur þegar Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari, kallaði menn til sín og reyndi að vekja þá. Vörnin skánaði við það en sóknarleikurinn ekkert að ráði. Þó tókst Valsliðinu að jafna metin, 9:9, eftir 21 mínútu aðallega vegna markvörslu Hlyns og hraðaupphlaupsmarka Sveins Arons Sveinssonar. Adam var ekki lengi í Paradís því um leið og ÍR-ingum tókst að lengja sóknir sínar á nýjan leik þá sótti í sama farið. Hver sókn Valsliðsins á fætur annarri var líkt og hjá byrjendum. Leikmenn dripluðu boltanum niður, svo sóknarleikurin  minnti meira körfuboltaleik en handbolta. Þá ráku hver mistökin á fætur öðrum, skref, ruðningur, lína og sendingamistök. ÍR-ingar bættu í og náðu fjögurra marka forskot fyrir hálfleikinn, 14:10 og voru óheppnir að vera ekki fimm mörkum yfir þegar gengið var til búningsklefa að loknum fyrri hálfleik.

Valsmenn minnkuðu muninn í þrjú mörk snemma í síðari hálfleik, 16:13, en lengra komust þeir ekki að sinni. ÍR-ingar bættu í og náðu fimm marka forskoti, 19:14, þegar 11 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þeir voru enn með fimm marka forskot, 23:18, þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka. Tveir brottrekstrar reyndust ÍR-liðinu dýrir. Valsmenn gengu á lagið og minnkuðu muninn í eitt mark, 24:23, þegar fimm mínútur voru eftir.

ÍR-ingum tókst að verja sigurinn og vinna með einu marki. Davíð Georgsson innsiglaði sigurinn tæpri hálfri mínútu fyrir leiksloka. Daníel Þór Ingason minnkaði muninn í eitt mark, 27:26, en nær komust Valsarar ekki.  Sanngjarn sigur.

Bjarni Fritzson þjálfari ÍR var ekki í leikmannahópi liðsins að þessu sinni. Hann stýrði liðinu frá hliðarlínunni ásamt Einari Hólmgeirssyni. Daníel Berg Grétarsson  kom inn í lið ÍR en hann hefur lítið leikið síðustu ár vegna meiðsla.

Fylgst var með gangi mála í  beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Valur 26:27 ÍR opna loka
60. mín. Hlynur Morthens (Valur) varði skot - örvæntingarfullt skot hjá Sturlu. Tæp hálf mínúta eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert