Grótta sló FH út í framlengingu

Grótta sló FH út í kvöld.
Grótta sló FH út í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grótta er komin áfram í 8-liða úrslit Coca Cola-bikars karla í handknattleik eftir sigur á FH í framlengdum leik á Seltjarnarnesi, 28:23.

FH-ingar voru komnir í góða stöðu, fimm mörkum yfir, í upphafi seinni hálfleiks. Grótta vann sig hins vegar fljótt inn í leikinn og skoraði fimm mörk í röð.  FH var þó aftur þremur mörkum yfir þegar um tíu mínútur voru eftir. FH tókst hins vegar ekki að tryggja sér sigurinn og staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma, 19:19. FH-ingar voru leikmanni fleiri í síðustu sókninni en tókst ekki að skora.

Í framlengingunni hrundi hins vegar leikur gestanna úr Hafnarfirði, og Grótta komst meðal annars í 24:19.

Leikurinn á Nesinu gekk ekki áfallalaust fyrir sig en rafmagnið fór af í seinni hálfleik, og þurfti að gera stutt hlé vegna þess.

Daði Laxdal Gautason og Júlíus Þórir Stefánsson skoruðu 6 mörk hvor fyrir Gróttu en Einar Rafn Eiðsson var með 8/4 mörk fyrir FH. 

Fyrr í kvöld komust 1. deildar lið Stjörnunnar og Afturelding áfram í 8 liða úrslitin.

Annað kvöld mætast Fjölnir og Selfoss í Grafarvogi, og næstkomandi laugardag eru leikir ÍBV 2 og Vals, og Þróttar Vogum og Fram. HK og aðallið ÍBV mætast svo 14. desember, og Haukar og ÍR 19. desember.

Sjá einnig:
Jóhann Gunnar með og Víkingur úr leik
Stjarnan sló Akureyringa út

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert