Lætur flughræðsluna ekki stöðva sig lengur

Sólveig Lára Kjærnested.
Sólveig Lára Kjærnested. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vináttulandsleikir Íslands við B-landslið Noregs í handknattleik kvenna um helgina mörkuðu tímamót hjá hinni þrítugu Sólveigu Láru Kjærnested, hornamanni Stjörnunnar.

Þetta voru fyrstu landsleikir hennar síðan hún ákvað að gefa ekki kost á sér með liðinu á heimsmeistaramótinu í Brasilíu árið 2011. Stór ástæða fyrir þeirri ákvörðun á sínum tíma er mikil flughræðsla sem hrjáir Sólveigu, en hún treysti sér til þess að ferðast til Noregs um helgina og spila í leikjunum tveimur.

„Ég er með ýmsar leiðir til að hjálpa mér að höndla flughræðsluna. Það er líka vissulega skárra að fara til Noregs en til Brasilíu. En ég er komin með fullt af trixum við þessu,“ sagði Sólveig Lára, sem hafði sem sagt ekki spilað landsleik í fjögur ár þar til nú um helgina. Hún segist aldrei hafa hafnað boði um að leika með landsliðinu, eftir Brasilíuferðina, en hafi að sama skapi aldrei verið valin fyrr en nú. Telur Sólveig að dyrunum hafi verið lokað þegar hún hætti við HM?

„Ég bara veit það ekki, og hef ekkert verið að hugsa um það. Ég hef bara ekki verið valin fyrr en nú, og ekki þurft að spá neitt í þetta,“ sagði Sólveig, sem nýtur þess hins vegar að fá aftur tækifæri með liðinu: „Það er ótrúlega skemmtilegt að vera komin aftur. Liðið er breytt og það vantar margar sem voru lykilmenn þegar ég var með því síðast, en þær sem þá voru kjúklingar í liðinu eru komnar í stór hlutverk.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert