Fjölnir kominn í 8-liða úrslit

Kristján Örn Kristjánsson átti mjög góðan leik fyrir Fjölni.
Kristján Örn Kristjánsson átti mjög góðan leik fyrir Fjölni. mbl.is/Golli

Fjölnismenn eru komnir í 8-liða úrslit Coca Cola-bikars karla í handbolta eftir sigur á Selfossi í slag 1. deildarliðanna, í Grafarvogi.

Fjölnir vann leikinn 29:24. Selfoss byrjaði þó mun betur og komst meðal annars í 5:0 og 7:1 áður en heimamenn hrukku í gang. Fjölni tókst hins vegar að komast yfir í leiknum í fyrsta sinn með síðasta marki fyrri hálfleiks, sem Kristján Örn Kristjánsson skoraði, en staðan að honum loknum var 14:13.

Fjölnir náði góðu forskoti í byrjun seinni hálfleiks, og komst meðal annars í 22:16. Selfoss náði að hleypa smáspennu aftur í leikinn og minnkaði meðal annars muninn í 25:23 þegar fjórar mínútur voru eftir, en þá varði Ingvar Kristinn Guðmundsson mikilvægt skot fyrir Fjölni sem skoraði næsta mark og vann að lokum fimm marka sigur, 29:24.

Kristján Örn skoraði 9 mörk í leiknum og Ingvar varði um það bil 20 skot. Brynjar Loftsson var næstmarkahæstur hjá Fjölni með 6 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði flest mörk Selfyssinga eða sjö talsins.

Áður höfðu Grótta, Afturelding og Stjarnan tryggt sér sæti í 8-liða úrslitunum, en 16-liða úrslitin klárast ekki fyrr en 19. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert