Flestir frá Porto og Sporting

Róbert Gunnarsson í síðasta leik Íslands og Portúgals en liðin …
Róbert Gunnarsson í síðasta leik Íslands og Portúgals en liðin mættust þrisvar hér á landi í sumarbyrjun 2014. mbl.is/Golli

Portúgalska karlalandsliðið í handknattleik sem mætir Íslendingum í tveimur vináttulandsleikjum í Kaplakrika í kvöld og annað kvöld kom hingað til lands frá Sviss þar sem það tók þátt í fjögurra þjóða alþjóðlegu móti, Yellow Cup, um síðustu helgi.

Þar töpuðu Portúgalar báðum leikjum sínum, fyrst 33:31 gegn Sviss og 34:30 á móti lærisveinum Patreks Jóhannessonar í Austurríki í leik um þriðja sæti mótsins.

Portúgalar hafa tryggt sér sæti í umspili heimsmeistaramótsins sem fer fram í júní, og gætu þar mögulega mætt Íslendingum, en úrslitakeppni HM verður í Frakklandi á næsta ári. Riðillinn í forkeppninni sem þeir voru í var spilaður á einni helgi í byrjun nóvember í Tel Aviv í Ísrael. Portúgalar báru þar sigur úr býtum. Þeir fengu 5 stig úr leikjunum þremur. Þeir byrjuðu á því að gera jafntefli á móti Eistum, 28:28, en höfðu síðan betur á móti Georgíumönnum, 37:22, og Ísraelsmönnum, 36:21.

Tveir spila í Frakklandi

Tólf leikmenn úr 16 manna landsliðshópi Portúgala spila í heimalandi sínu. Flestir koma frá Porto eða fimm talsins og fjórir leikmenn spila með Sporting Lissabon. Tveir af leikmönnum portúgalska landsliðsins spila í Frakklandi, markvörðurinn Ricardo Candeias leikur með Pontault í næstefstu deild og José Costa spilar með Montpellier. Þá er Thiago Rocha leikmaður hins sterka pólska liðs Wisla Plock og Jorge Silva leikur með Anaitasuna á Spáni.

Portúgal var oft andstæðingur Íslands á stórmótum á árum áður en nú eru liðin þrettán ár frá síðasta mótsleik þjóðanna. Ísland vann leik liðanna í Portúgal, 29:28, í lokakeppni HM sem fór fram þar í landi í janúar 2003. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 7 mörk og er einn eftir í íslenska liðinu frá þeim leik, en Aron Kristjánsson, núverandi landsliðsþjálfari, spilaði leikinn og skoraði eitt mark.

Frá þeim tíma hafa Ísland og Portúgal leikið fimm vináttulandsleiki. Ísland hefur unnið fjóra en Portúgal einn. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert