Væri asnalegt að gefast upp eftir þrjá daga

Guðjón Valur lætur skotið ríða af í leiknum gegn Pórtúgal …
Guðjón Valur lætur skotið ríða af í leiknum gegn Pórtúgal í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurfum að skoða hvað við gerðum vitlaust og vera ferskari en við vorum í þessum leik,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir fjögurra marka tap fyrir Portúgal í vináttulandsleik í Kaplakrika í kvöld, 32:28.

Leikurinn var sá fyrsti í undirbúningi Íslands fyrir lokakeppni Evrópumótsins í Póllandi síðar í mánuðinum og Guðjón segir að það megi ekki lesa of mikið í þessi úrslit.

„Ég gef flestum frípassa eftir leikinn í dag, því ég vil skrifa þetta á líkamlega þreytu. Auðvitað er engin afsökun fyrir að tapa, en við höfum hlaupið mikið og lagt mikið á okkur síðustu daga svo menn eru þreyttir og þungir. Auðvitað eru það aðstæður sem koma upp á mótinu líka, en við erum að þróa okkar leik og það er eðlilegt á fyrstu stigum æfinga að gera mistök,“ sagði Guðjón Valur og undirstrikaði orð sín.

„Við gefumst ekki upp eftir þrjá daga, það væri alveg rosalega asnalegt. Þetta er bara eitthvað sem tekur tíma og við erum rétt að byrja. Þetta er ekki það sem við vildum en við höfum ekki ennþá tapað neinu á EM,“ sagði Guðjón Valur og er ánægður með hvernig íslensku leikmennirnir hafa komið inn í undirbúninginn fyrir mótið.

„Mér líst vel á liðið og viðhorfið hjá strákunum, hvernig þeir leggja líf og sál í þetta á æfingum. Ég vonast til þess að það verði áfram þrátt fyrir þennan leik,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert