Naumt tap Íslands í fyrri leiknum

Aron Pálmarsson fór fyrir íslenska liðinu og skoraði átta mörk.
Aron Pálmarsson fór fyrir íslenska liðinu og skoraði átta mörk. Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik tapaði fyrir Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans hjá Þýskalandi þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í Kassel í dag. Eftir að hafa haft tveggja marka forskot í hálfleik fóru Þjóðverjar með eins marka sigur af hólmi, 26:25. Þjóðirnar mætast á ný á morgun.

Þýska liðið byrjaði mikið mun betur og náðu snemma yfirhöndinni. Liðið náði mest fjögurra marka forskoti nokkrum sinnum í fyrri hálfleiknum þar sem Christian Dissinger fór fyrir þeim í sókninni. Íslenska liðið var hins vegar á hælunum jafnt í vörn sem og í markvörslu, en í fyrri hálfleik öllum vörðu markverðir Íslands aðeins þrjú skot.

Sóknarleikurinn gekk hins vegar ágætlega. Aron Pálmarsson minnti á sig og skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik auk þess sem hann var duglegur að mata liðsfélaga sína. Íslenska liðið var fjórum mörkum undir þegar um fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en skoruðu tvö síðustu mörk hans og höfðu Þjóðverjar því tveggja marka forskot í hálfleik, 15:13.

Þjóðverjar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik. Andreas Wolff kom í markið hjá þeim og var íslensku sóknarmönnunum erfiður. Heimamenn héldu tveggja til þriggja marka forskoti framan af síðari hálfleiknum og héldu áhlaupum íslenska liðsins vel í skefjum.

Þegar tæpar sjö mínútur voru eftir náðu Íslendingar hins vegar loks að jafna leikinn, 23:23, og komust yfir í kjölfarið í fyrsta sinn í leiknum. Björgvin Páll Gústavsson varði þá mikilvæg skot auk þess sem mun betri taktur var í vörninni frá því í fyrri hálfleiknum.

Lokamínúturnar voru því æsispennandi. Þegar mínúta var eftir komust Þjóðverjar einu marki yfir og þegar leiktíminn rann út átti Ísland aukakast eftir. Aron Pálmarsson tók það en skotið fór í varnarvegginn, lokatölur 26:25 fyrir Þýskaland.

Aron Pálmarsson var markahæstur hjá Íslandi með átta mörk eins og Christian Dissinger hjá Þjóðverjum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Þjóðirnar mætast á ný í Hannover klukkan 14 á morgun í síðasta leik sínum fyrir EM í Póllandi og sömuleiðis verður fylgst með honum í beinni hér á mbl.is.

Þýskaland 26:25 Ísland opna loka
60. mín. 25 sekúndur eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert