Rut í átta liða úrslit Evrópukeppninnar

Rut Jónsdóttir í landsleik.
Rut Jónsdóttir í landsleik. mbl.is/Styrmir Kári

Rut Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, og samherjar hennar í danska liðinu Randers tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum EHF-bikars kvenna í handknattleik með því að vinna stórsigur á heimavelli gegn Nimes frá Frakklandi, 33:21.

Fyrri leikurinn í Frakklandi endaði 27:27 og í kvöld var Randers yfir í hálfleik, 14:11. Rut og félagar stungu hinsvegar af í seinni hálfleik. Rut skoraði 3 mörk í leiknum en hún gerði tvö mörk í fyrri viðureign liðanna.

Leipzig, lið Þorgerðar Önnu Atladóttur, er líka komið í átta liða úrslit eftir tvo sigra Muratpasa frá Tyrklandi. Leipzig vann fyrri leikinn á heimavelli um síðustu helgi, 33:26, og sigraði naumlega i Tyrklandi í dag, 26:25. Þorgerður er frá keppni vegna meiðsla.

Auk Randers og Leipzig eru Metzingen frá Þýskalandi, Odense frá Danmörku, Dunaujvarosi frá Ungverjalandi, Astrakhanochka frá Rússlandi og Höörs frá Svíþjóð komin áfram. Áttunda liðið verður annaðhvort rúmenska liðið Roman eða Brasov sem leika seinni leik sinn á morgun. Roman, sem sló Fram út í 32ja liða úrslitum, vann nauman heimasigur, 22:21, í fyrri leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert