Erfitt verkefni bíður Guðmundar

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur á hliðarlínunni á EM í …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur á hliðarlínunni á EM í Póllandi. AFP

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Danmerkur í handknattleik karla, fær verðugt verkefni í forkeppni fyrir Ólympíuleikanna sem haldnir verðar í Ríó næsta sumar.

Danir eru í riðli með Króatíu, Noregi og Barein, tvö lið fara upp úr riðlinum og taka þátt í leikunum í sumar. 

„Þetta er erfiður riðill sem við fengum. Við sáum Noreg og Króatíu spila um bronsið á EM í dag og þetta eru tvö mjög góð lið,“ sagði Guðmundur í viðtali við heimasíðu danska handknattleikssambandsins. 

„Það væri mikill kostur að fá að spila á heimavelli. Riðillinn er það erfiður að það hefði mikið að segja að fá að spila í Danmörku,“ sagði Guðmundur Þórður enn fremur, en Danir hafa sótt um að riðill þeirra fari fram í Danmörku. 

Danmörk endaði í sjötta sæti á EM í Póllandi sem lauk í gær eftir að hafa tapað fyrir Frakklandi í lokaleik sínum.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig riðlarnir eru skipaðir:

1. riðill: Pólland, Makedónía, Síle og Túnis.
2. riðill: Spánn, Slóvenía, Íran og Svíþjóð.
3. riðill: Danmörk, Króatía, Noregur og Barein.

Tólf lið keppa á leikunum í sumar. Þau sex lið sem eru örugg áfram eru Brasilía (gestgjafi), Frakkland (heimsmeistari), Argentína (Ameríkumeistari), Katar (Asíumeistari), Þýskaland (Evrópumeistari) og Egyptaland (Afríkumeistari).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert