Óli Stef hrellti Akureyringa síðast

Ólafur Stefánsson skoraði sex marka Vals þegar liðið vann Akureyri …
Ólafur Stefánsson skoraði sex marka Vals þegar liðið vann Akureyri í október. Það er eini leikurinn sem hann hefur spilað í vetur. mbl.is/Eva Björk

Keppni í Olís-deild karla í handknattleik hefst að nýju í kvöld þegar Valur tekur á móti Akureyri í Valshöllinni að Hlíðarenda. Leikurinn hefst kl. 19.

Nú er 18 umferðum af 27 lokið í deildinni og liðin tíu því öll búin að mæta hvert öðru bæði á heima- og útivelli. Í lokaþriðjungnum ræðst hvaða tvö lið falla og hvaða átta lið komast í úrslitakeppnina í vor.

Fyrir leikinn í kvöld er Valur með 28 stig í 2. sæti deildarinnar og getur jafnað Hauka að stigum á toppnum með sigri. Akureyri er með 17 stig í 6. sæti og kæmist með sigri upp fyrir ÍBV og að hlið Aftureldingar.

Þegar Valur tók á móti Akureyri í október fögnuðu heimamenn þriggja marka sigri, 26:23, og skoraði Ólafur Stefánsson sex mörk í þessum eina leik sem hann hefur spilað í vetur, en hann tók fram skóna vegna meiðslavandræða Valsmanna. Valur vann einnig leik liðanna á Akureyri í september, 27:19.

Nítjánda umferð klárast annað kvöld með þessum fjórum leikjum:

Fimmtudagskvöld:
19.30 ÍR - ÍBV
19.30 FH - Víkingur
19.30 Haukar - Afturelding
20.00 Grótta - Fram

Staðan í deildinni: Haukar 30, Valur 28, Fram 21, Afturelding 19, ÍBV 18, Akureyri 17, Grótta 16, FH 14, ÍR 11, Víkingur 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert