Stórleikur Hlyns skóp sigurinn

Hörður Másson sækir að vörn Vals í kvöld.
Hörður Másson sækir að vörn Vals í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann öruggan sigur á Akureyri, 22:15, í Olís-deild karla í Valshöllinni í kvöld. Heimamenn voru marki yfir í hálfleik, 12:11. Þeir komust upp að hlið Hauka í efsta sæti með sigrinum en Haukar eiga leik til góða.

Hlynur Morthens átti stórleik í marki Vals í fremur rislágum handboltaleik. Hann varði 24 skot og reyndist leikmönnum Akureyrar enn einu sinni óþægur ljár í þúfu. Akureyringar voru án fjögurra sterkra leikmanna og kom það mjög niður á leik liðsins, ekki síst þegar á leið.

Í síðari hálfleik kom rúmlega 10 mínútna kafli án marks hjá Akureyrarliðinu og 13 mínútur liðu á milli marka hjá Valsliðinu á sama tíma leiksins. Þegar Valsmönnum tókst loks að brjóta ísinn þá sigldu þeir framúr og unnu verðskuldaðan sjö marka sigur.

Elvar Friðriksson lék með Val í fyrsta sinn í vetur eftir að hafa jafnað á meiðslum og uppskurði í nára. Einnig lék Ómar Ingi Magnússon með Val á ný eftir að hafa verið frá keppni síðan í október.

Akureyrarliðið var á fjögurra sterkra leikmanna, Heiðars Þórs Aðalsteinssonar, Hreiðars Levý Guðmundssonar, Brynjars Hólm Grétarssonar og Sigþórs Árna Heimissonar. Þá var Róbert Sigurðsson lasinn þótt hann tæki þátt í leiknum og Bergvin Þór Gíslason fann til eymsla í hægri öxl.

Ungur markvörður, Bernharð Anton Jónsson, vakti mikla athygli. Hann kom til leiks eftir um 20 mínútur og varði vel allt til leiksloka.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. Tölfræði leiksins er að finna hér fyrir neðan.

Valur 22:15 Akureyri opna loka
60. mín. Geir Guðmundsson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert