Einar í fantaformi í sigri FH

Karolis Stropus, leikmaður Víkings, skorar eitt af ellefu mörkum sínum …
Karolis Stropus, leikmaður Víkings, skorar eitt af ellefu mörkum sínum í sigri Víkings gegn FH í Víkinni fyrir áramót. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

FH steig stórt skref í átt að úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik með sigri sínum gegn Víkingi í 19. umferð deildarinnar í Kaplakrika kvöld.

Einar Rafn Eiðsson var frábær í liði FH sem innbyrti afar mikilvægan sigur í baráttunni um að forðast fallið og tryggja sér um leið sæti í úrslitakeppninni. Lokatölur í leiknum urðu 27:22 FH í vil.

Leikmenn FH hófu leikinn af miklum krafti og náðu góðu forskoti í upphafi leiks. Víkingur sýndi hins vegar mikinn karakter með því að koma sér aftur inn í leikinn. Einu marki munaði á liðunum í hálfleik og Víkingur náði að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks. 

Þá tók Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, leikhlé og breytti um varnarleik. FH spilaði framliggjandi 3:3 vörn sem svínvirkaði. FH náðu aftur upp þægilegu forskoti sem þeir létu ekki af hendi og sigldu nokkuð öruggum sigri í land. 

Einar Rafn Eiðsson og Jóhann Birnir Ingvarsson áttu afar góðan leik og skoruðu mörk sín með áræðnum gegnumbrotum og undirhandaskotum. Þá átti Ágúst Elí Björgvinsson stóran þátt í að tryggja FH þennan mikilvæga sigur með góðri markvörslu sinni.

Karolis Stropus var einu sinni sem oftar aðalsprautan í sóknarleik Víkings, en hann skoraði fjögur fyrstu mörk Víkings í leiknum. Aðrir leikmenn Víkings komu svo til skjalanna þegar leið á leikinn og léttu undir með litháensku skyttunni.

Einar Rafn var markahæstur í liði FH með 11 mörk, en Karolis Stropus var atkvæðamestur í liði gestanna úr Fossvoginum með átta mörk. Ágúst Elí Björgvinsson varði 13 skot í marki FH þar af þrjú víti og Einar Baldvin Baldvinsson og Magnús Gunnar Erlendsson vörðu sex skot hvor í marki Víkings.

FH náði fjögurra stiga forskoti á ÍR með þessum sigri, en liðin munu berjast fram á vor um fall úr deildinni annars vegar og sæti í úrslitakeppninni hins vegar.

Það er aftur á móti orðið afar langsótt fyrir Víking að halda sæti sínu í efstu deild að ári. Tíu stigum munar nú á Víkingi sem situr á botni deildarinnar með sex stig og FH sem er í áttunda sætinu sem tryggir veru í deild þeirra bestu að ári og veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni.

FH 27:22 Víkingur opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með fimm marka sigri FH sem nær þar með tíu stiga forskoti á Víking. FH er í áttunda sæti deildarinnar með 16 stig, en Víkingur situr aftur á móti á botni deildarinnar með sex stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert