Róbert á leið til Danmerkur?

Róbert Gunnarsson er sagður vera á leið í danska handboltann …
Róbert Gunnarsson er sagður vera á leið í danska handboltann á næstu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

Línumaðurinn Róbert Gunnarsson er með tilboð frá danska liðinu Århus Håndbold og eftir því sem næst verður komist gera forráðamenn félagsins sér góðar vonir um að Róbert gangi til liðs við félagið í vor þegar samningur hans við franska meistaraliðið PSG rennur út.

TV2 í Danmörku fullyrðir þetta á vef sínum. Þar segir að samningaviðræður á milli Róberts og Århus Håndbold gangi vel.

Í frétt TV2 segir ennfremur að Róbert sé án vafa einn vinsælasti leikmaðurinn  í sögu félagsins. Hann lék með Árósarliðinu frá 2002 til 2005 og var valinn leikmaður ársins í dönsku úrvalsdeildinni auk þess að vera markakóngur deildarinnar vorið 2005. Hann skoraði þá 241 mark í 26 leikjum. Árið á undan var Róbert næst markahæsti leikmaður deildarinnar.

Róbert vann unnið hug og hjörtu stuðningsmanna félagsins á þessum árum en frá félaginu fór hann til Gummersbach í Þýskalandi, síðan til Rhein-Neckar Löwen. Róbert, sem er 35 ára gamall, lýkur sínu þriðja keppnistímabili með PSG í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert