Unnið að því að jafna sveiflur

Lárus Helgi Ólafsson og samherjar hans í Gróttu fögnuðu sigri …
Lárus Helgi Ólafsson og samherjar hans í Gróttu fögnuðu sigri í kvöld. mbl.is/Thorir O. Tryggvason.

Lárus Helgi Ólafsson lokaði marki Gróttu á lokamínútunum í kvöld og hélt Frömurum í hæfilegri fjarlægð á þeim kafla en Grótta sigraði 28:25 þegar Olís-deildin fór aftur af stað eftir EM-fríið. 

„Við erum búnir að æfa ótrúlega vel í janúar og nýttum tímann mjög vel. Okkur var farið að kitla verulega í fingurna eftir því að fá að spila alvöru leik. Við spiluðum slatta af æfingaleikjum en það er eins og svart og hvítt. Við vorum auk þess duglegir að æfa. Hrikalega gaman að fá að byrja aftur og stutt í kvöld þannig að við erum vel peppaðir,“ sagði Lárus en nýliðar Gróttu eru í 6. sæti og hafa sýnt mjög góðar hliðar í vetur. Lárus bendir hins vegar á að enn séu sveiflur í leik liðsins. 

„Við erum með ákveðin markmið sem við settum okkur í upphafi vetrar. Í fyrstu umferðunum áttum við bæði eftir að slípa okkur saman og fá trú á okkar getu sem lið. Ég held að við séum hægt og rólega að öðlast meiri trú á liðinu. Mér fannst við eiga frábæran seinni hálfleik á móti mjög sterku liði Fram. Skoruðum sextán mörk í seinni hálfleik sem er ákaflega gott enda Fram með góða vörn og góða markverði. Á góðum degi eru okkur allir vegir færir en á slæmum degi eru okkur allir vegir lokaðir. Við erum að reyna eins og við getum að jafna leik okkar og stefnum að því að toppa á réttum tíma og það verður bara að vera í vor,“ sagði Lárus Helgi við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert