Fara tvö lið úr 1. deild í undanúrslit?

Kristján Örn Kristjánsson, Fjölni, Gróttumaðurinn Árni Benedikt Árnason mætast í …
Kristján Örn Kristjánsson, Fjölni, Gróttumaðurinn Árni Benedikt Árnason mætast í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik með liðum sínum í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í kvöld kemur í ljós hvað lið komast í undanúrslit bikarkeppni HSÍ, Coca Cola-bikarsins, þegar síðari tveir undanúrslitaleikirnir fara fram. Tvö lið úr 1. deild eru enn með í keppninni og þau verða bæði á heimavelli í leikjum kvöldsins sem hefjast klukkan 19.30 í TM-höllinni í Garðabæ og í Dalhúsum í Grafarvogi. 

Stjarnan tekur á móti Fram í TM-höllinni í Garðabæ, áður Mýrinni. Stjarnan trónir á toppi 1. deildar um þessar mundir og hefur aðeins tapað einum af fjórtán leikjum í vetur. Stjarnan féll úr Olís-deildinni síðasta vor og stefnir hraðbyri upp í deildina á nýjan leik undir stjórn Einars Jónssonar, fyrrverandi þjálfara Fram. 

Fram-liðið, undir stjórn Guðlaugs Arnarssonar, situr í þriðja sæti Olís-deildar eftir að hafa náð ágætum árangri á keppnistímabilinu. Fram og Stjarnan háðu harða baráttu um að forðast fall úr Olís-deildinni á síðustu leiktíð þar sem Fram hafði betur á lokasprettinum. 

Nýliðar Olís-deildarinnar, Grótta, etja kappi við Fjölnismenn sem eru í öðru sæti 1. deildar. Fjölnir hefur á að skipa nær sama liði og á síðustu leiktíð þegar liðið var hársbreidd frá að vinna sér sæti í Olís-deildinni en tapaði naumlega fyrir Víkingi í æsispennandi rimmum. Grótta fór hins vegar beint upp úr 1. deild í vor sem leið án þess að tapa leik. Gróttu-liðið, undir stjórn Gunnars Andréssonar, hefur leikið vel í Olís-deildinni það sem af er og lagði m.a. Fram í síðustu viku á heimavelli. 

Fjölnismenn, undir stjórn Arnars Gunnarssonar, ætla eins og í fyrra að selja sig dýrt í leiknum í kvöld í Dalhúsum eins og Gróttumenn. Arnar hefur einu sinni farið í undanúrslit bikarkeppinnar eftir að fyrirkomulagi keppninnar var breytt fyrir þremur árum og sérstök úrslitahelgi sett upp með undanúrslitum og síðan úrslitaleik sömu helgina. Arnar leiddi Selfossliðið í undanúrslit árið 2013. Sama ár fór lið Stjörnunnar alla leið í úrslitaleikinn en þá var liðið einnig í 1. deild. 

Haukar og Valur hafa þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins. Haukar lögðu Aftureldingarmenn í gær og Valur skellti bikarmeisturum ÍBV í Eyjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert