Grótta í undanúrslit - Fjölnir úr leik

Það er hart barist í leik Fjölnis og Gróttu í …
Það er hart barist í leik Fjölnis og Gróttu í Dalhúsum í Grafarvogi. mbl.is / Golli

Nýliðar Olís-deildarinnar, Grótta, slógu Fjölnismenn sem eru í öðru sæti 1. deildar út í átta liða úrslitum Coca Cola bikars karla í handknattleik í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld. Grótta sigraði 29:18 en staðan að loknum fyrri hálfleik var 14:10 fyrir Gróttu.

Fjölnir fékk tækifæri til að koma sér í ágæta stöðu fyrsta korterið þegar liðið opnaði vörn Gróttu í mörg skipti og Grótta kastaði boltanum hvað eftir annað frá sér í sókninni. Alls tapaði Grótta boltanum ellefu sinnum í fyrri hálfleik. Fjölnismenn nýttu hins vegar ekki tækifærið og Seltirningar náðu tökum á leiknum seint í fyrri hálfleiknum. 

Í síðari hálfleik voru leikmenn úrvalsdeildarliðsins mun einbeittari. Spiluðu þá mun öflugri vörn eins og þeir gera iðulega í úrvalsdeildinni. Þá áttu Fjölnismenn litla möguleika. 

Skyttan efnilega Kristján Örn Kristjánsson sýndi skemmtileg tilþrif hjá Fjölni en hjá Gróttu skoraði Finnur Ingi Stefánsson 12/7 mörk og Lárus Helgi Ólafsson varði 17 skot á 50 mínútum en hann hélt Gróttu á floti í fyrri hálfleik. 

Fjölnir hefur á að skipa nær sama liði og á síðustu leiktíð þegar liðið var hársbreidd frá að vinna sér sæti í Olís-deildinni en tapaði naumlega fyrir Víkingi í æsispennandi rimmum.

Grótta fór hins vegar beint upp úr 1. deild í vor sem leið án þess að tapa leik. Gróttu-liðið, undir stjórn Gunnars Andréssonar, hefur leikið vel í Olís-deildinni það sem af er og lagði til að mynda Fram í síðustu viku á heimavelli. 

Fjölnir 18:29 Grótta opna loka
60. mín. Breki Dagsson (Fjölnir) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert