Telja að kæra skili engu

Vignir Svavarsson varð bikarmeistari í Midtjylland í gær.
Vignir Svavarsson varð bikarmeistari í Midtjylland í gær. mbl.is/Golli

Forráðamenn danska handknattleiksliðsins GOG reikna ekki með kæra þeirra vegna framkvæmdar bikarleiks liðsins við Midtjylland verði til þess að úrslitaleikur dönsku bikarkeppninnar í handknattleik karla verði leikinn að nýju. 

Þeir lögðu inn í kæru strax í leikslok í gær en algjört klúður átti sér stað við framkvæmd úrslitaleiksins sem varpaði skugga á hann. Þannig var að stóra netið á bak við annað markanna festist uppi við þak í hálfleik, svo að áhorfendur sátu berskjaldaðir fyrir skotum annars liðsins. Leikhléið varð nærri 30 mínútur á meðan reynt var að leysa málið, en að lokum var ákveðið að færa áhorfendur í stúkurnar við hliðarlínur vallarins, og hafa engin net á bak við mörkin. Þetta hafði mikil áhrif á leikinn, því þegar liðin áttu skot framhjá var engin von um hraðaupphlaup, því lengri tíma tók að sækja boltann.

Midtjylland, með landsliðsmanninn Vigni Svavarsson innanborðs, lét þetta ekki trufla sig og breytti stöðunni úr 13:12 í leikhléi í 22:13 snemma í seinni hálfleik. Liðið vann síðan leikinn og fagnaði bikarmeistaratitlinum eins og greint var frá í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert