Meistararnir lentu í kröppum dansi á Selfossi

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er í stóru hlutverki hjá Selfyssingum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er í stóru hlutverki hjá Selfyssingum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Grótta sigraði Selfoss, 26:22, í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik en leikið var á Selfossi. Ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar Gróttu eru þar með fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum en áður höfðu Stjarnan, Fylkir og Haukar gert það.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en í stöðunni 5:5 skoraði Grótta fimm mörk í röð og stakk heimastúlkur af. Vörn Seltirninga var sterk á þessum kafla og Íris Björk Símonardóttir á tánum í markinu. 

Selfyssingar náðu þó að losa stífluna og skoruðu þrjú mörk á síðustu fimm mínútum hálfleiksins. Það dugði þó ekki til að jafna leikinn mikið en fimm mörkum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik, staðan 13:8 fyrir Gróttu.

Selfoss hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti og jafnaði metin í 15:15 eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Leikurinn var í járnum næsta korterið en Grótta var aðeins sterkari í lokin og náði að tryggja sér áframhaldandi þátttöku í bikarkeppninni, lokatölur 26:22 fyrir Gróttu.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði Selfyssinga en hún skoraði 10 mörk. Adina Maria Ghidoarca kom næst með fimm mörk og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 10 skot í markinu.

Unnur Ómarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Gróttu og var markahæst en Anett Köbli kom næst með fjögur mörk. Íris Björk Símonardóttir fór á kostum í markinu en hún varði 23 skot í kvöld.

Selfoss 22:26 Grótta opna loka
60. mín. Jóna Margrét Ragnarsdóttir (Selfoss) skoraði mark Jóna Magga búin að skora sitt fyrsta mark fyrir Selfoss.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert