Sigtryggur úr leik í þrjá mánuði

Sigtryggur Daði Rúnarsson.
Sigtryggur Daði Rúnarsson. Ljósmynd/ehv-aue.org

Hinn ungi handknattleiksmaður, Sigtryggur Daði Rúnarsson, leikur ekki þýska 2. deildarliðinu EHV Aue næstu þrjá mánuði. Beinflís úr lærlegg hafði tekið sér bólfestu fyrir aftan hnéskelina og nuddaðist við hana. Fyrir vikið þá bólgnaði hnéð upp við áreynslu. 

Flísin hefur verið fjarlægð með aðgerð og fest á sinn upphaflega stað með skrúfum, að sögn Sigtryggs. Hann sagði við mbl.is áðan ekki hafa ekki orðið var við þegar flísaðist upp úr beininu á sínum tíma.

Sigtryggur, sem er 19 ára gamall leikstjórnandi, hefur leikið með EHV Aue undanfarin þrjú ár og sífellt fengið stærra hlutverk innan liðsins. Hann var í U19 ára landsliði Íslands sem hafnaði í þriðja sæti á HM í sumar sem leið en sama lið vann Opna Evrópumeistaramótið í Svíþjóð nokkru áður.

EHV Aue er í sjötta sæti þýsku 2. deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert