Stoltir að hafa náð í Róbert

Róbert Gunnarsson skorar fyrir Ísland gegn Hvíta-Rússlandi á EM í …
Róbert Gunnarsson skorar fyrir Ísland gegn Hvíta-Rússlandi á EM í Póllandi. Ljósmynd/Foto Olimpik

Jan Nielsen, stjórnarformaður danska handknattleiksfélagsins Århus Håndbold, segir að það sé mikill fengur í að fá Róbert Gunnarsson aftur í raðir félagsins eftir rúmlega áratugs fjarveru.

Róbert lék með Århus frá 2002 til 2005 en hefur síðan spilað í Þýskalandi og Frakklandi. Hann yfirgefur París SG eftir þetta tímabil og flytur til Árósa á ný. Síðasta tímabilið þar, 2004-05, var hann markakóngur dönsku úrvalsdeildarinnar og jafnframt kjörinn besti leikmaður deildarinnar.

Á vef Århus í dag er talað um Róbert sem goðsögn í félaginu og nú fái handboltaáhugamenn í Árósum á nýjan leik að njóta þess að sjá þennan litríka línumann.

„Við erum afar stoltir yfir því að það skuli hafa tekist að fá leikmann á  borð við Róbert til Århus Håndbold. Róbert hefur á undanförnum árum, og nú síðast á EM í Póllandi, sýnt að hann er ennþá í hópi bestu línumanna heims. Hann mun, með sínum margvíslegu hæfileikum innan vallar sem utan gefa liði okkar nýja vídd á næsta tímabili," segir Nielsen við vef félagsins.

„Þegar Róbert lék með Århus Håndbold á sínum tíma heillaði hann áhorfendur með útgeislun sinni og baráttuvilja, auk magnaðs leiks. Og hann er leikmaður eins og við viljum sjá. Barátta, vilji og hæfileikar samankomnir í einum og sama manninum," sagði Nielsen og staðfesti að það hefði þurft talsverðar fjárhæðir til að geta gengið frá samningum við Íslendinginn.

„Við erum með ófrávíkjanlegar reglur um að það útgjöld og tekjur séu í jafnvægi. Þegar við sáum að það væri möguleiki á að fá Róbert til okkar fyrir næsta tímabil funduðum við með einum af okkar tryggu samstarfsaðilum og báðum hann um sérstakt framlag. Og ég verð að segja að við fengum frábæran stuðning úr þeirri átt. Við erum mjög þakklátir fyrir samstöðuna sem samstarfsaðilar okkar sýna," sagði Jan Nielsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert