Haukar völtuðu yfir Stjörnuna

Ramune Pekarskyte er hér að skora fyrir Hauka í Mýrinni …
Ramune Pekarskyte er hér að skora fyrir Hauka í Mýrinni í kvöld. mbl.is/Golli

Haukar sigruðu Stjörnuna, 25:16, í Olís-deild kvenna í handknattleik í Garðabænum í kvöld. Með sigrinum komust Haukar í efsta sæti deildarinnar, í bili að minnsta kosti en hin efstu liðin leika á morgun. Haukar eru með 32 stig en Stjarnan er áfram í 6. sæti með 26 stig.

Haukar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks í kvöld og Stjarnan átti ekkert svar við frábærum varnarleik gestanna úr Hafnarfirði. Haukar komust í 7:0 og fyrsta mark Stjörnunnar kom ekki fyrr en fyrri hálfleikurinn var hálfnaður.

Forskot Hauka jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á hálfleikinn. Sterk vörn og Elín Jóna í miklu stuði í markinu þar fyrir aftan gerðu það að verkum að Haukar skoruðu mörg mörk eftir hraðaupphlaup. Staðan að loknum fyrri hálfleik 17:4 fyrir Hauka. Ótrúlegar tölur í þessum toppslag.

Í síðari hálfleik hresstist leikur Stjörnunnar, enda annað varla hægt eftir fyrri hálfleikinn. Sóknarleikurinn lagaðist talsvert en sigri Hauka var þó ekki ógnað, lokastaðan 25:16 fyrir Hauka.

Markahæst í liði Hauka var Ramune Petarskyte með 6 mörk og Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 17 skot í markinu. Helena Rut Örvarsdóttir og Sólveig Lára Kjærnested voru markahæstar í liði Stjörnunnar með 6 mörk hvor og Florentina Stanciu varði 8 skot í marki Stjörnunnar.

Stjarnan 16:25 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Öruggur sigur Hauka!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert