Stórsigur Valskvenna

Patricia Szölösi og Hildur Björnsdóttir, leikmenn Fylkis, í stórsókn í …
Patricia Szölösi og Hildur Björnsdóttir, leikmenn Fylkis, í stórsókn í einum af leikjum tímabilsins. mbl.is/Árni Sæberg

Valur vann níu marka sigur á Fylki, 34:25, í Fylkishölllinni í dag í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olís-deildinni. Liðið heldur þar með áfram að elta efstu liðin í deildinni en Valur situr í fjórða sæti aðeins þremur stigum á eftir toppliði Gróttu. Fylkir er í fjórða sæti. Valur var marki yfir í hálfleik, 15:14, en þegar á síðari hálfleikinn leið skildu leiðir. Fylkisliðinu tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar í vikunni.

Valur byrjaði leikinn betur og náði fljótlega góðu forskoti sem byggðist fyrst og fremst á mörkum eftir hraðaupphlaup eftir mörg mistök í sóknarleik Fylkis. Valur náði um skeið fjögurra marka forskoti. Fylkisliðinu tókst að færa sér liðsmun í nyt. Í þrígang á síðustu tíu mínútum var Valsliðið manni færa. Á þeim tíma tókst Fylki að minnka muninn í eitt mark, m.a. rétt fyrir hálfleik en þá stóðu leikar, 15:14, Val í vil.

Fylkisliðinu tókst vel til í fyrri hálfleik að draga bitið úr uppstilltum sóknarleik Vals með því að „skerma“ Kristínu Guðmundsdóttur út í  fimm plús einn vörn. Bæði lið áttu í vandræðum með uppstilltan sóknarleik ekki síst Valur sem lagði grunn að forskoti sínu í fyrri hálfleik með fjölda hraðaupphlaupa.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri. Valur náði þriggja til fjögurra marka forskoti  og virtist ætla að stinga af. Sú varð ekki raunin. Fylkisliðið gafst ekki upp heldur minnkaði muninn í eitt mark, 21:20, og það þótt Thea Imani Sturludóttir væri meira og minna út af vegna meiðsla í ökkla. Sara Dögg Jónsdóttir varði  vel. Fljótlega sótti þó í sama farið. Valur náði fjögurra marka forskoti eftir nokkrar óvandaðar sóknir Fylkis og síðar sex marka forskot, 27:21, þegar um tíu mínútur voru eftir. Þann mun náði Fylkisliðið aldrei að  brúa, þvert á móti þá dró enn meira í sundur með liðunum síðustu mínútur leiksins.

Skarð var fyrir skildi hjá Fylki að Thea lék nær ekkert með í síðari hálfleik vegna meiðsla í ökkla sem einnig hrjáðu hana í fyrri hálfleik.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Fylkir 25:34 Valur opna loka
60. mín. Gerður Arinbjarnar (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert