„Íslandsdvölin stærsta tækifæri lífs míns“

Jaliesky García í leik með Íslandi gegn Danmörku þar sem …
Jaliesky García í leik með Íslandi gegn Danmörku þar sem hann skoraði níu mörk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslenskir handknattleiksþjálfarar stýra um þessar mundir fjórum evrópskum landsliðum og þrjú þeirra eru í hópi þeirra albestu í heiminum. Dagur Sigurðsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson og Þórir Hergeirsson hafa gert það heldur betur gott í Þýskalandi, Danmörku og Noregi og Patrekur Jóhannesson stendur fyrir sínu í Austurríki. En einn Íslendingur til viðbótar stjórnar erlendu landsliði þó ekki hafi farið hátt um það því um áramótin var Jaliesky García, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands og Kúbu, ráðinn þjálfari karlalandsliðs Púertóríkó, og það reyndar í annað sinn.

„Við erum með efnilegt lið og mitt markmið er að ná þriðja sæti í Ameríkukeppninni í sumar og komast með Púertóríkó í heimsmeistarakeppnina í Frakklandi á næsta ári,“ sagði García þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í vikunni.

García, sem fæddist á Kúbu og spilaði ungur með landsliðinu þar, kom til Íslands árið 2000, þá 25 ára gamall, og lék með HK í þrjú ár. Eftir það var hann í sex ár atvinnumaður hjá Göppingen í Þýskalandi.

Lék með Íslandi á stórmótum

García, sem var kraftmikil rétthent skytta, fékk íslenskan ríkisborgararétt í mars 2003 og spilaði fyrstu landsleikina í þeim mánuði. Hann lék með landsliðinu frá 2003 til 2008, spilaði samtals 46 landsleiki og skoraði í þeim 149 mörk. Hann lék meðal annars fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og á EM 2004 í Slóveníu og 2008 í Noregi.

„Þegar ég hætti hjá Göppingen og flutti til Púertóríkó, heimalands eiginkonu minnar, árið 2009, var ég ráðinn landsliðsþjálfari og stjórnaði liðinu m.a. á Mið-Ameríkuleikunum. Handknattleikssambandið í landinu var í ýmiss konar vandræðum um þetta leyti og ég ákvað að draga mig í hlé eftir að hafa þjálfað liðið í eitt ár. Ég stofnaði mitt eigið fyrirtæki, JG Fit Zone, þar sem ég er með einkaþjálfun og grunnþjálfun fyrir íþróttafólk, og hef rekið það síðan.“

Viðtalið við Garcia í heild sinni er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Jaliesky Garcia og Guðjón Valur Sigurðsson í landsleik fyrir rúmum …
Jaliesky Garcia og Guðjón Valur Sigurðsson í landsleik fyrir rúmum áratug. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert