Vitum vel að við getum unnið Hauka

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, er hér fyrir miðri mynd.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, er hér fyrir miðri mynd. Eva Björk Ægisdóttir

„Það var lítill varnarleikur og þar af leiðandi lítil markvarsla í fyrri hálfleik og mikið skorað. Seinni hálfleikurinn var svolítið sveiflukenndur og við misstum dampinn í varnarleiknum um miðjan seinni hálfleikinn. Við breyttum svo um varnarleik og komum okkur aftur inn í leikinn. Svo hefði þetta getað dottið beggja megin undir lokin,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 32:31 tap liðsins gegn Haukum í kvöld í lokaumferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

„Mér fannst liðin bjóða upp á mikla skemmtun hér í kvöld. Þetta hefur verið þeirra vetur í deildinni og við tókum bikarinn á móti og við sjáum svo til hvað gerist í úrslitakeppninni. Við vitum vel að við getum unnið Hauka og við hefðum gert það ef við hefðum spilað aðeins betur í þessum leik,“ sagði Óskar Bjarni enn fremur.

„Það er erfitt að eiga við góða sóknarmenn Hauka þegar þeir fá að taka fjögur til fimm skref ofan á gæði þeirra í sóknarleiknum. Mér fannst dómgæslan furðulega á báða bóga oft og tíðum, en þeir voru að sjálfsögðu að gera sitt besta eins og alltaf,“ sagði Óskar Bjarni sem hafði ýmislegt út á dómgæsluna að setja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert