Aftureldingarmenn voru klókari

„Það var svona sitt lítið af hverju sem vantaði upp á hjá okkur síðustu mínúturnar," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir þriggja marka tap, 25:22, fyrir Aftureldingu í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik í Valshöllinni í kvöld. 

„Við vorum tveimur mörkum yfir, 19:17, þegar rúmlega 10 mínútur voru eftir og töpuðum lokakaflanum illa. Aftureldingarmenn voru klókari. Þeir léku ákveðin kerfi sem við áttum ekki nógu góð svör við, að minnsta kosti leystum við illa úr þeim.  Davíð, markvörður Aftureldingar, varði vel. Auk þess þá vorum við ekki nógu fljótir aftur í vörnina í síðari hálfleik. Það vantaði meira bit í okkur. Það var var meiri kraftur í Aftureldingarmönnum á lokamínútunum og þær eru mikilvægastar þegar upp er staðið," sagði Óskar Bjarni sem hefur um nóg að hugsa með sínum mönnum fyrir næsta leik liðanna sem fram fer í Mosfellsbæ á mánudagskvöldið.

Ólafur Stefánsson lék með Valsliðið í kvöld og þótt hann væri hvorki oft né lengi inn á leikvellinum þá var greinilegt að hann getur breytt einu og öðru í liðinu. „Það er mjög gott að hafa Ólaf til taks en hann vinnur ekki leikina fyrir okkur upp á eigin spýtur. Strákarnir verða að vinna leikina en Ólafur getur hjálpað okkur og aukið breiddina í leikmannahópnum," sagði Óskar Bjarni sem ekki gat stillt upp Daníel Þór Ingasyni í dag vegna meiðsla auk þess sem Ómar Ingi Magnússon er ekki með eftir að hafa meiðst í kappleik fyrir vikið síðan. Eins og áður hefur komið fram leikur Ómar Ingi ekki meira með Valsliðinu á þessari leiktíð. 

Nánar er rætt við Óskar Bjarna á meðfylgjandi myndskeiði, bæði um Ólaf Stefánsson og hvað Valsliðið þurfi að bæta fyrir næsta leik við Aftureldingu í undanúrslitunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert