Stjarnan jafnaði metin

Helena Rut Örvarsdóttir er hér að skora fyrir Stjörnuna í …
Helena Rut Örvarsdóttir er hér að skora fyrir Stjörnuna í dag. mbl.is/Þórður

Stjarnan jafnaði metin í einvígi sínu við deildarmeistara Hauka í með sigri í TM-höllinni, 23:19, í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik. Stjarnan var sterkari í leiknum frá upphafi til enda og hafði m.a. þriggja marka forskot í hálfleik, 12:9. Næsti leikur liðanna verður í Schenker-höllinni á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið.

Fyrri hálfleikur var afar kaflaskiptur. Stjarnan skoraði fjögur fyrstu mörkin á fyrstu fimm mínútunum. Eftir stutt leikhlé Hauka jafnaði liðið með fjórum mörkum í röð. Stjarnan tók þá leikhlé og skoraði fjögur mörk í röð í kjölfarið. Eftir það jafnaðist leikurinn nokkuð þótt Stjarnan hafi haldið frumkvæðinu, ekki síst vegna góðrar frammistöðu Florentinu Stanciu markvarðar. Munurinn á liðunum var þrjú mörk að loknum fyrri hálfleik, 12:9, Stjörnunni í vil.

Stjarnan skoraði þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks og jók forskot sitt í sex mörk, 15:9. Baráttugleðin og einbeitingin var meiri hjá Stjörnuliðinu auk þess sem Florentina varði vel í marki liðsins. Um miðjan síðari hálfleikinn var munurin enn þá sex mörk, 19:13, heimaliðinu í hag. Haukar náðu stuttri gagnsókn og minnkuðu muninn í fjögur mörk, 19:15. Mikið nær komust þær ekki. Sóknarleikur liðsins var þunglamalegur og borinn upp af Karen Helgu Díönudóttur sem barðist eins og ljón. Aðrir leikmenn náðu sér á litt á strik. Má þar nefna Ramune Pekarskyte sem skorði ekki mark í síðari hálfleik. Hún fékk högg á hægra hné í fyrri hálfleik og var um skeið utan vallar. Ramune komst aldrei í gang eftir það auk þess sem henni voru gefnar góðar gætur af vörn Stjörnunnar.  Stjörnunliðið hélt sjó til leiksloka og vann sanngjarnan og öruggan sigur.

Stjarnan 23:19 Haukar opna loka
60. mín. Haukar tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert