„Hljóp einhver púki í Kára“

Haukar fagna í leikslok í Eyjum í kvöld.
Haukar fagna í leikslok í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var bara slagur út í gegn en sem betur fer höfðum við þetta,“ sagði Haukamaðurinn Janus Daði Smárason eftir sigurinn á móti ÍBV í tvíframlengdum leik í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik í Eyjum í kvöld.

Haukar eru þar með komnir í 2:0 í einvíginu og með sigri á Ásvöllum á fimmtudaginn tryggja þeir sér sæti í úrslitaeinvíginu.

„Þetta var hörkuleikur út í gegn og sigurinn hefði hæglega getað endað hjá ÍBV. En við höfðum meiri kraft í lokin og erum auðvitað mjög ánægðir með þá stöðu sem við erum komnir í. Við gerum okkur hins vegar alveg grein fyrir því að þetta er ekki búið. Eyjamennirnir munu
selja sig dýrt í næsta leik en við ætlum okkur ekki aftur til Eyja þetta tímabilið,“ sagði Janus, sem skoraði 7 mörk og tryggði Haukum fyrri framlenginguna.

„Þetta var bráðskemmtilegur leikur sem var nokkuð harður og var kannski framhaldið af fyrsta leiknum. Stemningin í Eyjum var mögnuð og svona á þetta bara að vera í úrslitakeppninni. Ég neita því ekki að staða okkar er góð en við verðum að halda haus og berjast áfram,“ sagði Janus Daði.

Kári Kristján Kristjánsson línumaður ÍBV fékk rautt spjald í fyrri hálfleik. Spurður hvort hann hafi séð það atvik sagði Janus;

„Ég held að það hafi verið réttur dómur. Hann var bara klaufi í hita leiksins. Það varð einhver hasar á milli hans og Hákons og síðan hljóp einhver púki í Kára. Ef hann fær rautt spjald vegna óíþróttamannlegrar framkomu þá held ég að því fylgi leikbann,“ sagði Janus Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert