Valsmenn jöfnuðu metin að Varmá

Jóhann Gunnar Einarsson úr Aftureldingu reynir skot að marki Vals …
Jóhann Gunnar Einarsson úr Aftureldingu reynir skot að marki Vals í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur jafnaði metin í rimmu sinni við Aftureldingu í kvöld með sigri í leik liðanna að Varmá í Mosfellsbæ, 26:23, í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik. Þar með hefur hvort lið unnið einn leik í einvíginu en því verður haldið áfram á heimavelli Valsmanna á fimmtudagskvöldið. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.

Valsmenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, og voru með frumkvæðið í  leiknum frá upphafi til enda.

Fyrir utan tvær fyrstu sóknirnar þá byrjaði Valsliðið afar vel. Geir Guðmundsson var í miklum ham í sókninni og skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum Vals. Hinum megin var Jóhann Gunnar Einarsson höfundurinn á bak við fjögur fyrstu mörk Aftureldingar, þar af skoraði hann þrjú þeirra. Varnarleikur Vals var beittari framan af og Hlynur Morthens vel með á nótunum. Eftir rúmlega 14 mínútna leik tóku heimamenn leikhlé verandi fjórum mörkum undir, 9:5, í mesta basli, jafnt í vörn sem sókn.
Aftureldingarmenn færðu vörn sína aðeins framar út á móti Geir og Guðmundi og náði þar með að slá á mesta sóknarþunga Valsmanna. Auk þess þá var leikmönnum Vals fjórum sinnum vísað af leikvelli á síðari helmingi fyrri hálfleiks. Þeir stóðu þau áhlaup af sér lengi vel en þegar leið að lokum fyrri hálfleiks þá gáfu þeir eftir. Mosfellingar skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu metin í 11:11.
Valsmenn skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleik og voru tveimur yfir þegar gengið var til búningsherbergja, 13:11.

Aftureldingu gekk illa að brúa bilið í byrjun síðari hálfleiks. Ekki bætti úr skák þegar Jóhann Gunnar Einarsson fékk beint rautt spjald fyrir að slá óvart í andlit Ýmis Arnar Gíslasonar eftir rúmar níu mínútur í síðari hálfleik. Þá var Afturelding þremur undir, 16:13.

Um mriðja síðari hálfleik var munurinn fjögur mörk, 19:15, Val í vil. Þennan mun náðu Aftureldingarmenn ekki að jafna. Valur náði mest sex marka forskoti um tíma. Þegar flautað var til leiksloka var munurinn þrjú mörk, 26:23.

Dómararnir Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson voru grjótharðir í dómgæslunni, að marga mati full harðir.  En þegar hiti er leiknum þá verða menn oft að grípa til hörðu línunniar í dómgæslunni, ekki síst þegar tóninn er gefinn snemma leiks.

Höggin voru skörð í bæði lið fyrir leikinn. Mosfellingar voru án Árna Braga Eyjólfssonar og Böðvars Páls Ásgeirssonar. Árni Bragi var meiddur á öxl og Böðvar líka eftir að hafa farið ú hægri axlarlið í fyrsta leiknum á laugardaginn. Í lið Vals vantaði Daníel Þór Ingason og Vigni Stefánsson. 
Aftureldingarmenn gæla við að Árni Bragi og Böðvar Páll verði í leikmannahópi liðsins í þriðju viðureign  liðanna á fimmtudagskvöldið í Valshöllinni. Meiri óvissa ríki um Vigni og Daníel.

Afturelding 23:26 Valur opna loka
60. mín. Jóhann Jóhannsson (Afturelding) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert