Við klikkum á alltof mikið af dauðafærum

Halldór Harri Kristjánsson.
Halldór Harri Kristjánsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar var ekki sáttur eftir leik liðsins gegn Haukum í kvöld. Haukar unnu 29:23 og þurfa nú aðeins einn sigur í viðbót til að komast í úrslitaeinvígið um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá finnst mér við vera í séns í þessum leik. Við erum bara að fá á okkur alltof mikið af klaufalegum mörkum í vörninni og sóknarlega sóum við helling af dauðafærum. Það skilar svo Haukum auðveldum mörkum úr hröðum upphlaupum og það er erfitt að eiga við það,“ sagði Halldór Harri eftir leik.

Florentina Stanciu, Markvörður Stjörnunnar og landsliðsins fór meidd af velli á 12. mínútu og virtist sárþjáð.

„Eins og staðan er núna, þá vitum við ekki alveg hver staðan er á Florentinu. Hún finnur fyrir miklum sársauka í hnénu og þetta verður bara að koma í ljós á morgunn hvert framhaldið verður hjá henni.“

Þjálfarans bíður nú það verkefni að þjappa sínum hóp saman fyrir fjórða leikinn á föstudaginn.

„Við eigum enn möguleika og verðum að koma tilbúin til leiks á föstudagskvöldið í Garðabæ. Ef við komum ekki dýrvitlaus í þetta verkefni, þá veit ég ekki hvað,“ sagði Halldór Harri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert