Við eigum harma að hefna

„Varnarleikurinn hefur verið fínn hjá okkur á keppnistímabilinu en við breyttum aðeins út af í leikjunum við Fram með því að leika vörnin á mun agressívari hátt en áður. Þar með mættum við skyttum Fram-liðsins vel," sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, eftir að liðið lagði Fram, 21:16, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Grótta sér sæti í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. 

„Ég ætla ekki að segja að Stefán vinur minn og þjálfari Fram hafi ekki gert sitt til þess að leysa úr vanda liðsins gegn vörn okkar en það var ljóst að þessi vörn okkar hentar skyttum Fram-liðsins illa," sagði Kári ennfremur. 

Spurður hvort Gróttuliðið sé að toppa á réttum tíma sagðist Kára vonast til þess. „Ég verð að minnsta kosti var við að það er góð stemning í hópnum og tilhlökkun yfir að takast á við leikina sem bíða okkar í úrslitaeinvíginu. Það er frábært að hafa unnið Fram, 3:0, og Selfoss 2:0. Það er enginn hægðarleikur.  Nú er bara að bíða og sjá hvort það verða lið Hauka eða Stjörnunnar sem við mætum í úrslitum. Við eigum harma að hefna gegn báðum liðum eftir leikina í deildarkeppninni," sagði Kári.

Nánar er rætt við Kára á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert