Við þurfum að spila með hjartanu

Karen Helga Díönudóttir
Karen Helga Díönudóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér fannst við mæta miklu sterkari núna en í síðasta leik og það var allt önnur orka í liðinu. Þetta er það sem við þurfum ef við ætlum alla leið, að spila með hjartanu,“ sagði Karen Helga Díönudóttir fyrirliði Hauka eftir öruggan 29:23 sigur gegn Stjörnunni. Haukar leiða nú í einvígi liðanna 2:1 og geta með sigri í Mýrinni á föstudagskvöldið, tryggt sér sæti í úrslitunum gegn Íslandsmeisturum Gróttu.

Liðin hafa ekki verið að skora mikið í þessu einvígi en Karen segir Hauka eiga mikið inni á þeim vettvangi.

„Við höfum náttúrlega verið mikið sóknarlið í allan vetur en sóknarleikurinn okkar hefur ekki staðist væntingar í þessari úrslitakeppni. Það var orkuleysi í okkur í leiknum í Garðabæ. Við vorum ekki að koma á fullu gasi í okkar aðgerðir og kláruðum ekki brotin í vörninni. Þetta var mun betra í kvöld.“

Aðspurð hvort að gjaldkeri Hauka kafi eitthvað verið að ýja að því að fá fimmta leikinn á heimavelli og þar með nokkrar krónur í kassann svarar Karen brosandi, „Okkur er slétt sama um peningana og munum auðvitað gera okkar besta að klára þetta í Mýrinni á föstudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert